Sandvíkurdeild

Um skógarreiti í Sandvíkurhreppi.

Hannes Jóhannsson bað mig að koma á aðalfund Skógræktarfélagsins og koma með eitthvað sjálfvalið efni inn á fundinn.

Mér fannst tilhlýðilegt að reyna að fara yfir sviðið hér í hreppnum, og gerði mér ferð til að taka nokkrar myndir af reitum félagsins: Byggðarhornsgirðingu og Geirakotsgirðingu (Nautaskógur) og skoða hvort þar mætti ekki eitthvað fara betur.

Það hefur gengið heldur brösuglega með Skógrækt hér í hreppnum og fáir skógarreitir eru til. Ef litið er til alls þess trjágróðurs sem finna má uppi á Selfossi, skyldi maður halda að það ætti að vera auðvelt að rækta skóg hér.

Þið munið e.t.v. eftir orðum Hákonar Bjarnasonar sem hann lét eitt sinn falla á fundi í flóanum, þegar hann sagði “ Það eins auðvelt að rækta skóg í Flóanum og að steikja kleinur” Þetta hefur mönnum þó reynst erfiðara en Hákon vildi vera láta.

Þá ryfjast upp sagan sem sögð var um kleinurnar á Stóra-Ármóti.

Þórarinn á Litlu-Reykjum var staddur á hlaðinu hjá Jóni heitnum á Stóra –Ármóti og sagði seinna svo frá.

 

Mér var boðið í bæinn,

mér var boðið kaffi, það var gott.

Mér var boðin kleina sem ég þáði.

Ég beit í og fann að hún var seig.

Ég beit fastar í en ekkert gekk.

Ég tók þá það til ráðs að snúa upp á kleinuna með höndunum.

Þégar ég var búinn að snúa vel á annan hring, þá missti ég takið,

og þá sló hún mig helvítis kleinan.

Af þessu má sjá að kleinusteiking í Flóanum getur verið á ýmsan hátt.

 

 

Ég byrjaði á að fara í Byggðarhornsgirðingu.

1. Það sem first grípur hugann er það sem er mest áberandi: allmörg Sitkagreni, sem eru að byrja á að skaga upp úr öllum öðrum trjám.

2. Greinilegt er að stafafuran á nokkuð í vök að verjast og er orðin æði kollótt, sem þýðir það að á henni dynja meiri vindar heldur en hún ræður vel við. Hún virðist oft álíka há og birkið í kring sem líka er nokkuð kollótt. Stafafuran er talsvert skemmd af snjóbroti og af þéttleika.

3. Jafnvel stór tré verða að láta undan stundum. Hér hefur stafafura oltið á rótinni en lifir samt vel. Þetta er algeng sjón í skógum okkar og stafar af því að rótarsnúningur hefur verið á plöntunni í upphafi. Furan á mjög erfitt með að rétta úr slíkum snúningi og mynda nýjar rætu.

4. Birki myndar víða kanta og hér má sjá áhrif sv-áttar á birki í suðvestur-horni Byggðarhornsgirðingarinnar. Þetta er mjög algengt í skógarköntum þar sem mikið mæðir á . Það má segja að fyrstu 20 metrarnir frá kanti skógarins sé allt saman skógarkantur og ekki megi búast við fullkomlega eðlilegum vexti trjáa fyrr en 20 metra fjarlægð er náð. Þetta er þó háð aðstæðum.

5. Ösp: svolítið er um unga ösp á vesturkanti reitsins. Hún þrífst vel hér eins og víðast á suðurlandi. Hún á ekki í neinum vandræðum.

6. Ösp er einnig innan við suðurkant skógarins og vex óaðfinnanlega.

 

 

7. Tvö hross voru innan girðingar þegar ég kom þar og í dálaglegum holdum. Ég leitaði því eftir skemmdum á trjám af völdum hrossanna en fann ekkert utan smávegis á þessum víðirunna. Við höfum verið að prófa hrossabeit í gróðursetningum, þar sem gras er virkilegt vandamál. Skoðun og reynsla manna í því efni bendir til þess að óhætt sé að beyta hrossum á nýgróðursett land, ef það er gert í sep – oktober, og varlega sé beitt, og alls ekki nauðbeitt. Hrossin naga í fæstum tilfellum plöntur, og traðk er ekki vandamál. Einstaka hross, einkum folar eru þó að fikta í plöntum. Því skyldi, ef þetta er reynt, fylgjast vel með hrossum í upphafi beitar. Útigangshross eru bannvara.

8. Víða í Byggðarhornsgirðingu standa tré of þétt og eru að berja hvert annað. Yfirleitt lemja lauftrén barrtrén og skemma. Nauðsynlegt er hér að grisja og snyrta. Oft má laga til tré sem eru bækluð. Í Byggðarhornsgirðingu þarf að fjarlægja mikið.

Við stefnum á það að útvega ykkur grisjunarmenn á næsta ári á vegum Skf.Árn.

9. Niðurstaða mín eftir þessa skoðun í Byggðarhornsgirðingu er þessi: Grisja hressilega og laga þau tré sem hægt er. Stefna á það að planta eingöngu Sitkagreni og Ösp í framhaldinu. Allar aðrar tegundir sem hér hafa verið reyndar eru langtum lakari að vexti og gæðum.

10. Við erum alltaf að læra við skógarmenn. Reynslan hér á suðurlandi er að kenna okkur það nú eftir ca 50 ára notkun á t.d. Sitkagreni og Stafafuru sem hér hafa verið mest notuðu tegundirnar í Skógrækt að grenið hefur klárt vinninginn þegar til lengri tíma er litið. Furuna má oft nota á rýrt land og þá gjarnan með greni, því furan bætir land og gerir greninu fært að vaxa á rýrara landi en því hentar í raun.

11. Öspin er einnig að sýna að hún getur vaxið á langtum lakara landi en við höfum haldið til þessa, og ég tala nú ekki um ef við plöntum lúpínu með henni.

Næst skulum við halda vestur í Geirakotsgirðingu.

Þar er nokkuð aðra sögu að segja, enda er jarðvergur hér harla rýr, svo ekki þarf að búast við miklum vexti.

1. Reiturinn stendur að mestu á mjög grunnum jarðvegi þar sem Þjórsárhraunið stendur víða upp úr. Lítill sem enginn munur er á botngróðri innan og utan girðingar, þótt hann hafi notið friðunar innan girðingar lengi. Grasvöxtur er víða gróskumeiri utan girðingar en innan og auðvita helst þar sem raki er meiri.

2. Í köntum hefur víða verið plantað birki, en jafnvel það er komið af fótum fram og er lítið annað en kalkvistir núorðið. Birki þarf reyndar talsvert frjóan jarðveg til að vaxa vel. Í ransóknum um landnám birkis á örfoka landi hefur komið í ljós að birki fylgir oftast í kjölfar landnáms víðis (grávíðis eða gulvíðis) og því má áætla að sú sveppa og bakteríuflóra sem fylgir víðirnum, sé nauðsynleg birkinu. Það væri því tilraunarinnar virði, að prufa það að planta saman birki og víði sem örugglega er kominn með rótarbakteríur, þ.e. að stinga upp villtan víðir og planta með birkinu.

3. Stafafura er það sem mest hefur verið plantað af hér. Hún á bersýnilega mjög erfitt uppdráttar og líklegast vegna vindálags, og etv. saltákomu. Hún er einnig mjög skemmd af snjóbroti. Það er vitað um stafafuru, að ef hún sligast undan snjó, þá á hún erfitt með að rétta úr sér.

4. Mjög víða stendur stafafuran mjög þétt, og etv mætti laga hana til og grisja.

5. Það er eftirtektarvert að sjá að þau örfáu sitkagrenitré sem eru í girðingunni, eru einu trén sem eitthvar eru að teigja sig uppávið.

6. Jafnvel eru sitkagreni sem lítils skjóls njóta komin með góðan topp og á leið upp. Þetta hefur auðvita tekið tíma og etv. hafa tré í girðingunni aldrey fengið áburð? Svolítil hressing myndi ekki saka.

7. Víða eru rjóður í furuskóginum sem mætti nýta til að planta sitkagreni og einnig ösp.

8. Ekki eru öll sitkagreni jafn dugleg. Þetta hefur fengið áfall, eða er einfaldlega bæklað að upplagi.

9. Ég rakst á nokkrar ungar sitkagreniplöntur, sem lítið eru farnar að vaxa. Þessar myndu setja í gang ef þær fengju áburðarlúku.

Áburðarskammtar: Græðir 1 eða Blákorn: 1 gramm fyrir hvern lengdar-centimeter sem plantan er há.

10. Niðurstaða: Ég myndi leggja til að planta sitkagreni og ösp inn í eldri gróðursetningar. Þær skyldi líta á sem skjól fyrir nýa kynslóð plantna. Ekki myndi saka að koma með herfi Sr. (TTS) og raspa upp jarðveginn eins og hægt er og planta síðan í herfisrásirnar. Nauðsynleg verður þá að nota rýgresi saman við áburðinn til að hindra að plönturnar frjósi upp.

11. Rýgresið sem er einært, myndar brúsk kringum plöntuna og ver hana fyrir því að frjósa upp, sem mikil hætta er á ef landi er herfað. Herfingin hefur góð áhrif hvað varðar jarðvegshita og hindrar samkeppni frá öðrum gróðri. Rýgresið drepst að hausti en verður að næringu fyrir plöntuna næsta ár. Mjög góður árangur hefur verið af þessarri aðferð síðustu ár.

12. Furuna þyrfti að grisja og snyrta og etv planta sitkagreni og ösp inn í hana. Hér er það sama upp á teninginn og í Byggðarhornsgirðingu að hér þarf að koma með sögina.

 

Næst skulum við halda að Stekkum

og skoða svolítið skjólbelti.

1. Þar var sett upp skjólbelti fyrir áratug eða svo. Þetta belti hefur vaxið með ágætum. Það rammar af stykki og skýlir fyrir norðan og austan-átt.

 

2. Beltið er aðeins einföld röð og gert úr einni tegund víðis. Röð af sitkagreni hefur verið plantað hlémegin við beltið. Bil milli raðanna virðist vera ca 1,5 metrar.

 

Hér er það að ské eins og víðar að beltið er að gisna að neðan sökum þrengsla, þótt því hafi verið plantað með 1 metra milli plantna, alveg eins og nú er gert. Hér þarf að grisja, þannig að önnur hver planta væri söguð niður í 50 cm hæð og látin þar byrja að laufgast aftur og mynda lágaskjól og skapa um leið aukið krónurými fyrir þau tré sem eftir standa.

Hönnun skjólbelta í dag er á þann veg að í röð er plantað sitt á hvarð hávöxnum víði eins og er í þessu belti, og lágvöxnum víði sem myndar lágskjólið.

3.Í útkanti eins og hér eru raðirnar gjarnan hafðar 2. Hér mætti einnig planta innan við eða utanvið víðibeltið röð,þar sem skiptist á ösp með 3 metra millibili og 2 víðiplöntum á milli þeirra, frekar lágum. Þetta belti þyrfti að staðsetjast a.m.k 4 metra frá núverandi belti. Með þessu myndi myndast lágaskjól af víðirnum og háskjól af öspinni, en gamla beltið yrði þá milliskjólið.

Það er með skjólbelti eins og annan skóg að þetta þarf allt að grisja.

4. Jarðvegsgæði skipta öllu máli við ræktun trjáa og skjólbelta. Hér

er beltið gisið og drepist hefur úr því, enda stendur hraunið hér

uppúr og hér er lélegur jarðvegur. Hér þyrfti því að bæta í skit og

bæta í plöntum.

5. Fjölbreytni í vali plantna í skjólbelti er alltaf að aukast, og því fleyri sem tegundirnar eru því betra og öruggara verður skjólbeltið. Valdar eru plöntur í beltin eftir vaxtareiginleikum. Raðað er á víxl plöntum sem eru og verða lágvaxnar, plöntum sem verða stórir runnar, og einnig hávöxnum trjám. Alltaf er gert ráð fyrir því að beltin skuli grisja með nokkura ára millibili. Það er ekki aðeins verið að hugsa um skjól, heldur einnig smádýralíf, s.s. kanínur, héra, akurhænur, mýs og annað kvikt sem vill skýla sér fyrir óvinum í náttúrunni.

 

6. Að síðustu skulum við bregða okkur hér heim á hlað í Sandvík því síðustu tvær myndirnar eru teknar hérna fyrir utan. Góður jarðvegur eða tilfærð næring og skjól er forsenda þess að Skógrækt takist vel. Hér gefur að líta víðir og ösp í útköntum garðs, sem eins gæti verið skógarreitur. Vindbrjótum hefur verið komið upp utan um ræktunarsvæðið sem skapar skjól og hlýindi inni á ræktunarsvæðinu. Vindur kælir. Hiti er vöntunarfaktor hér á landi. Skjól eykur hita og minnkar uppgufun, sem hvoru tveggja er forsenda góðs árangurs við trjárækt.

Hér má einnig líta hlut sem ekki kemur til með að skila árangri. Hér hefur verið plantað víði eða ösp sem í sjálfu sér er fínt, en furan hér í forgrunni myndarinnar verður seint góð.

Hér ætti að setja upp víði og asparbelti. Innanvið ætti að planta sitkagreni, en sleppa furunni. Hér er landið frjósamt og best að nýta það með þeim trjátegundum sem vaxa hraðast.

7. Og að síðustu skulum við líta héðan af hlaðinu upp til Geirakotsgirðingar sem varla sést á myndinni, þótt þar hafi verið plantað trjám fyrir meira en 30 árum. Ég minni á það sem ég sagði um Geirakotsgirðinguna í upphafi, það ber að líta á það sem plantað hefur verið hingaðtil sem upphaf skógræktar og undirbúning. Þau tré sem þar standa nú skapa líklega ágætis skjól fyrir þær plöntur sem eftir á að planta þar. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að á öllu svæðinu héðan frá Sandvík og upp undir Selfoss má rækta skóg, aðeins ef við byrjum á réttum enda og búum til skjólið og vindbrjótana með réttum tegundum og aðferðum í upphafi. Líklegast væri best og haganlegast að fá útbúna gróðursetningaráætlun og kort af svæðunum með reitaskiptingu og aðgerðalista. Eftir þessu væri hægt að fara við framkvæmdir. Þetta er það sem bændur í Suðurlandsskógarverkefninu fá, áður en þeir hefja skógrækt á jörðum sínum.

Skógræktarfélag Árnesing Snæfoksstöðum Grímsnesi Pósthólf 19, 802 Selfossi www.skógarn.is sími 8936103